Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 385. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 650  —  385. mál.




Svar



atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn Ásmundar Einars Daðasonar
um innflutning á lambakjöti frá Nýja-Sjálandi.


     1.      Eru gerðar sömu kröfur um gæði og framleiðsluhætti nýsjálensks lambakjöts og innlends lambakjöts?
    Nýsjálenskt lambakjöt er flutt út til allra helstu markaða í heiminum, svo sem Asíu, Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Í gildi eru ákveðnir jafngildissamningar á milli Evrópusambandsins og Nýja-Sjálands um gagnkvæma viðurkenningu á framleiðsluferli á kjöti, þ.m.t. lambakjöti. Sérstök úttekt fór fram af hálfu eftirlitskerfis Evrópusambandsins í Nýja-Sjálandi áður en slíkir samningar voru gerðir. Þetta þýðir að Evrópusambandið telur að framleiðsluferlið í Nýja-Sjálandi uppfylli ákvæði matvælalöggjafar sambandsins á sama hátt og sambandið viðurkennir framleiðsluferlið á íslensku kjöti, sem þar af leiðandi er frjálst að flytja út til Evrópusambandslanda án hindrana að þessu leyti.
    Matvælastofnun hefur ekki haft fjármuni til að fara og taka út framleiðsluferli í þeim löndum sem það flytur inn kjöt frá heldur styðst við erlendar eftirlitsstofnanir, svo sem í Evrópusambandinu og áður einnig í Bandaríkjunum, eða eins og segir í d-lið 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 448/2012 um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins:
„d.    Opinbert vottorð sem staðfestir að dýrunum, sem afurðirnar eru af, hafi verið slátrað í sláturhúsum og afurðirnar unnar í vinnslustöðvum, viðurkenndum á Evrópska efnahagssvæðinu, ef um er að ræða vörur frá framleiðendum utan Evrópska efnahagssvæðisins.“

     2.      Hvernig verður innflutt nýsjálenskt lambakjöt merkt og hvar verður það selt?
    Sé nýsjálenskt lambakjöt flutt inn er það merkt í samræmi við íslenska löggjöf um merkingu matvæla. Matvæli á að merkja samkvæmt reglugerð nr. 503/2005 um merkingu matvæla með áorðnum breytingum, en í 6. gr. reglugerðarinnar kemur fram hvaða merkingar skuli koma fram á matvælum. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra er ekki í aðstöðu til að tilgreina hvar slíkt kjöt yrði selt, en gerir ráð fyrir að það yrði í verslunum.

     3.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að innlendir söluaðilar innflutta kjötsins, svo sem hótel, verslanir og veitingahús, verði skyldaðir til að greina neytendum frá uppruna þess?
    Reglugerð nr. 503/2005 um merkingu matvæla setur almennar reglur sem gilda hér á landi og setur kvaðir á fyrirtæki og söluaðila í þessu efni. Í þessu sambandi er rétt að minna á að í 8. tölul. 6. gr. reglugerðarinnar segir að skylt sé að merkja matvæli með upplýsingum um uppruna eða framleiðsluland ef skortur á slíkum upplýsingum gæti villt um fyrir neytendum.